Vígsla Martinusar

Martinus útskýrir hina andlegu reynslu sem færði honum eilífðarvitundina, forsenduna fyrir því að hann gat ritað Þriðja Testamentið, á eftirfarandi hátt:

„Sá „guðs andi“, sem samkvæmt biblíunni „sveif yfir vötnunum“, sá „eldur“ sem „brann í runninum“ fyrir Móses, sá „eldur“, sem bar Elías til himins, sá „eldur“, sem Jesús „ummyndaðist“ í á fjallinu, sá „eldur“, sem birtist yfir höfðum postulanna, og seinast breytti Sál í Pál á leiðinni til Damaskus, sá „eldur“, sem um allar aldir hefur verið „Alfa“ og „Omega“ í sérhverju formi æðstu sköpunar, birtingar eða opinberunar, logaði hér fyrir mínum eigin augum, brann í mínu eigin brjósti, mínu eigin hjarta, umlukti mig allan. Mér fannst ég baðast í eldhafi kærleikans. Ég var við upphafið, við sjálfa uppsprettu alls þess, sem skapar hlýju og umhyggju föður og móðir fyrir afkvæminu, skapar gagnkvæman unað í ástarleik ungra elskenda. Ég sá þann kraft, sem lætur höndina undirritað náðun, aflétta þrælahaldi, vernda lítilmagnann, litla dýrið jafnt sem veikburða gamalmennið. Ég sá það sólskin, sem brætt getur ísinn og fjarlægt kuldann úr hverri sál, breytt ófrjóum eyðimörkum vonleysis og bölsýni í frjósamar, sólríkar ekrur vitundarinnar, vermt hjartað, örvað skilninginn og með því fengið einstaklinginn til að fyrirgefa ranglætið, elska óvininn og skilja glæpamanninn. Mér var sem ég hvíldi við brjóst almáttugs Guðs. Ég dvaldi í uppsprettu alkærleikans, sá hina guðdómlegu fullkomnun, svo að ég var eitt með veginum, sannleikanum og lífinu, eitt með föðurnum mikla.“

„Um nánari greinargerð á opinberun, heilögum anda eða vígslu verð ég að vísa til rits þess, sem ég hef í smíðum og nefnist „Bók lífsins“. Hér skal ég aðeins geta þess, að svo háleitur viðburður er ætíð persónuleg reynsla, algerlega og eingöngu ætluð þeirri veru, sem fyrir verður,  og getur vitaskuld aldrei orðið bein staðreynd öðrum en þeim, er slíka yfirskyggingu hlýtur.“

„Þær andlegu sýnir, sem mér hafa hlotnast, væru því í sjálfu sér þýðingarlausar, hefðu þær ekki látið eftir sig sýnileg áhrif, sem hægt er að rannsaka. “

„Grundvöllur lesandans verður því ekki þær andlegu skynjanir, sem ég hef hlotið, einar sér, heldur afleiðingarnar, sem þær hafa skapað, því að þær getur hver maður meira eða minna athugað, sem til þess er hæfur siðferðislega, og er óhlutdrægur og frjáls. Þessar afleiðingar eru starfsemi mín í heild. Sköpun raunhæfra stærðfræðilegra alheimsgreininga, fullkomlega óhagganlegra andlegra vísinda, og á grundvelli þeirra myndun nýs hugarfars, nýrrar siðmenningar, þar sem sannur skilningur á lífinu, hárfínum kærleikslögmálum þess, hámark alheimsrökhyggju og heildarniðurstöðu: „Allt er harla gott“, breytist úr draumsýnum í raunhæfar staðreyndir, aðgengilegar hverjum þeim manni, sem gæddur er nægilegum þroska, skynsemi og tilfinninga.“

 

 
Eftirfarandi orð voru rituð seint á ævi hans, þegar safn verka hans var lokið og það eina sem átti eftir að gera var að kynna þau fyrir almenningi undir hinum rétta titli: Þriðja Testamentinu.

„Hvað er „Huggarinn, Heilagur andi“? Hann er klárlega ekki persóna, nýr Kristur, sem mun koma til þess að vera milliliður milli Guðdómsins og manneskjanna. Hann er vísindi um alheiminn og þar með um Guð. Hann á að vera útskýring á lausninni að leyndardómi alheimsins. Þess vegna er hann bók sem fólk getur lesið, líkt og það getur lesið biblíuna. Þessi „Huggari, Heilagi andi, sem Faðirinn mun senda“ sem Kristur spáði að myndi koma, er þess vegna „bók lífs“ eða „bók þekkingar“ sem mun vera opinberuð mannkyninu.

En bók sem inniheldur hinn raunverulega sannleika um Guðdóminn og alheiminn getur aðeins verið framhald að kosmisku heimsmenningu sem Kristur hóf fyrir tvö þúsund árum síðan og það sem við þekkjum sem „Kristni“. Þetta á að vera bók sem getur þjónað sem vitsmunalegur en ekki kreddufastur námsgrundvöllur í Kristni. Þetta á að vera bók sem sýnir hina fullgerðu Kristnu heimsmenningu í efnislegum sem og andlegum birtingarmyndum. Þetta á að vera bók sem lýsir ljósi í gegnum hámark bæði ljóss og myrkurs og meðfylgjandi áhrifum þeirra á lífsvirkni alheimsins- ódauðleika lifandi vera.

Þetta þarf að vera bók sem sýnir óendanleikan og eilífðina sem aftur leiða af sér hina lifandi lífsvirkni í mynd „tíma“ og „rúms“. Bók þar sem æðsta niðurstaðan er „altæk þekking“ og „almáttur“ sem í sameiningu mynda, þegar fullkomið jafnvægi ríkir, alkærleika, og þar með er það hið sama og hinn eilífi lífsneisti lifandi vera. Hér höfum við komið að „fasta punkti“ alheimsins, og upphaf hans „Föður Lífsins“, hinn algjöri og altæki eilífi Guðdómur.

Slík bók getur ekki hjá því komist að innihalda „hið mikla“, er Kristur átti eftir að segja mannkyninu, en sem Guð myndi færa framtíðarkynslóðum síðar meir. Slík bók getur ekki hjá því komist að vera „Huggarinn, Heilagur andi“. Vegna grundvallarstoðar sinnar innan kristninnar og vegna sambands hennar við hin tvö testamenti biblíunnar þá er réttmæti í því að kalla hana „Þriðja Testamentið“.

Umrætt „Þriðja Testamenti“ er því bók um visku eða þekkingu. Hún sýnir okkur eilífu útgeislun „alkærleikans“. Hún bendir okkur á þá „mynd af Guði“, sem allar lifandi verur í gegnum endurfæðingu eða endurholdgun eru skapaðar eftir.

Í "Þriðja Testamentinu" eru allar ófullgerðar veru, þ.e.a.s. "efnislegar verur", dýr jafnt sem manneskjur, sýndar á sömu leið, leið sem leiðir óhjákvæmilega til alheimsvitundar og þar með upplifun á gullnum dýrðarljóma alheimsins, hinu gullna ljósi, hins eilífa lífsneista lifandi vera og þar með til "Kristsvitundar" og þess að vera "eitt með Guði". Kristur var nú fyrirmyndin að sköpun vitundar Guðs í manneskjum. Sagði Kristur ekki einmitt: "Mér er veittur almáttur á himni sem og jörðu"? Hvernig ætti hann annars að geta verið í Guðs mynd án þessa hæfileika? Og hvernig ætti einhver önnur vera að geta verið sköpuð í þessari sömu mynd án þess að þurfa að vera leidd til þessa sama hæfileika?

"Huggarinn, heilagur andi" er þannig, í mynd þessa "Þriðja Testamentis", framhald af boðskap Krists. Hann er framhald af boðskap hins eilífa Ljóss frá “stjörnunni yfir Betlehem”. Hér í þessu eilífa ljósi er opinberað fyrir heiminum lausnin á stærstu lögmálum lífsins og þar með óhagganlegum undirstöðum kristindómsins, lífsgrundvöllur hamingju og sælu”. (Tilvitnanir úr handriti skrifuðu af Martinusi á síðustu árum lífs hans sem hafa ekki enn verið gefin út í heild sinni. Frá Inngangi að Þriðja Testamentinu).

© 1981 Martinus Institut