1. Æðsta trúarboðorð heimsins
Hvers vegna á að vera að kynna sér kosmiskar greiningar alheimsins, sem sumum kann að þykja nokkuð torskildar? Trúarbrögð manna og heimslausnarar hafa vísað þeim veginn til Guðs! Fær í rauninni nokkur séð betri og fullkomnari veg til Guðs eða sannrar menningarsköpunar en þann, sem þegar hefur verið sýndur t.d. í fjallræðu Jesú og öðrum helgum boðum Krists? Er unnt að fá betri leiðsögn um veginn til ljóssins en þessa: „Elskaðu Guð þinn yfir alla hlluti fram og náungann eins og sjálfan þig“? Svarið hlýtur að verða, að það sé gersamlega ómögulegt að benda á nokkra leið til Guðs, ljóssins eða algerlega fullkominnar menningarsköpunar, sem hafi ekki fyrst og fremst hið sama óbifanlega, guðdómlega boðorð í leiðsögn sinni sem hinn sanna grundvöll lífsins. Það er því alls ekki til þess að leiða menn burt frá helgum boðum Krists eða burt frá meira eða minna helgum boðum annarra hinna miklu heimstrúabragða eða leiðsögnum í siðgæði og hegðun, að hinar komsisku greiningar og táknmyndir af uppbyggingu lífins eru fram komnar, öðru nær. Það er einmitt til þess að sýna, að kjarninn í hinum helstu kosmisku niðurstöðum eða kenningum þessara vera er alger sannleikur.
2. Ástandið í heiminum eða hinn boðaði „dómsdagur“
Þessi ábending er nauðsynleg; það sýnir ástandið í heiminum nú á dögum ljóslega. Það er þannig, að því verður helst lýst sem dómsdegi eða ragnarökum, sem Kristur sagði að koma myndi yfir mennina á hinum "síðustu tímum". Er þess ekki enn fremur getið í frásögnum biblíunnar um framtíðina, að "djöfullinn æði í makt og miklu veldi"? - Hvað er það, sem við höfum séð í mynd tveggja heimsstyrjalda, er geisað hafa í mannheimi á þessari öld? - Höfum við ekki orðið vitni að tilraunum til að eyða milljónaborgum með íbúum þeirra og menningarverðmætum? - Já, hefur ekki jafnframt verið reynt að útrýma heilum kynflokkum manna? - Höfum við ekki séð milljónir manna myrtar - ekki eininguis á vígvöllunum sjálfum í vörn fyrir land sitt eða í árás á líf og eignir annarrar þjóðar, heldur hafa óbreyttir borgarar verið hnepptir í gasklefa og hreinlega myrtir þar algerlega utan við lög og rétt og vitaskuld án nokkurs minnsta tillits til boðorða lífsins: "Þú skalt ekki morð fremja", "Þú skalt fyrirgefa náunga þínum", "Slíðra þú sverð þitt, því að allir þeir, sem grípa til sverðs, munu farast fyrir sverði". Er ekki öll fylling lögmálsins einmitt boðorðið mikla: "Elska skaltu Drottinn Guð þinn yfir alla hluti fram og náungann þinn eins og sjálfan þig"? - Hvar er trúin á kærleiksríkan Guð og raunhæfa kristna menningu í þessari dómsdagstilveru, þar sem aragrúi manna, börn jafnt sem fullorðnir, hafa þjáðst til dauða í hinum hryllilegu fangabúðum eða aftökustöðum, sem vörpuðu djöfullegum helskugga yfir alla jörð?
3. Mennirnir vaxa upp úr trúarkreddum
Hvers vegna hafa hinar trúarlegu hugsjónir, sem boðaðar hafa verið mönnunum í þúsundir ára, ekki getað hindrað þetta djöfullega athæfi og afleiðingar þess: Dauðahryglu, örkuml, sjúkdóma, örbirgð og siðleysi? - Kemur það ekki einmitt hér í ljós, að kenningar þær og hugsjónir, sem frá trúarbrögðunum stafa, hafa ekki getað frelsað heiminn frá þessu skelfingartímabili dómsdagsins, hversu guðdómlegar sem þær annars hafa verið? - Já, sjáum við ekki einmitt, að mennirnir blátt áfram vaxa upp úr þessum hugsjónum, næstum eins og börn vaxa upp úr fötum sínum og skóm? - Þá er eðlilegt að menn glati hæfileikanum til þess að trúa á þær? - Hafa ekki milljónir manna orðið efnishyggjumenn, guðleysingjar? - Er það ekki enn fremur óhagganleg staðreynd, að þessi tala fer sívaxandi? - Að í kirkjum eða guðshúsum standa sífellt fleiri stólar auðir við guðsþjónustur? Er það ekki um leið orðið staðreynd, að æðstu alheimssannindi lífsins, trúarleg boðorð eða kenningar er orðið að dulspeki, orðið að einhverju, sem blátt áfram er talið að viti bornir menn geti ekki lagt sig niður við að stunda eða trúa á? Eru það mennirnir, sem eitthvað er bogið við, eða eru það trúarlegu hugtökin sem eru rangsnúin?
4. Menn, sem veita hugmyndum eða kenningum trúarlegs eðlis viðtöku án þess að spyrja um rök
Í altækum skilningi er ekkert að mönnunum eða trúarhugmyndunum. Trúarhugsjónirnar eru snilldarlega aðhæfðar þróunarstigi þeirra manna, sem þær voru gefnar. Og þessum mönnum eru þær grundvöllurinn, sem allt hvílir á. En mikill hluti mannkynsins er vaxinn upp úr þessu þróunarstigi. Þeir lifa í allt öðru hugrænu andrúmslofti en því, sem hinar trúarlegu niðurstöður eða kenningar voru sniðnar fyrir, og viðkomandi menn gátu aðhyllst til fulls, sökum þess að eðlishvatirnar áttu ennþá ríkari ítök í þeim en vitsmunirnir. Þeir voru ekki ennþá svo þroskaðir vitsmunalega, að þeir krefðust staðfestingar skynseminnar á hugsjónum eða kenningum trúarbragðanna eða heimtuðu rök fyrir þeim. Þeim var nóg, að þær voru útgefnar af yfirvöldum.
5. Menn þeir sem táknmyndirnar og jafnframt aðalritið, sem þær eru viðauki við, eru ætlaðar
En þannig er þetta ekki nú á dögum. Nú hefur geysilegur fjöldi manna misst hæfileikann til þess að trúa, því að eðlisávísun þeirra hefur meira eða minna látið undan síga fyrir vitsmunaþroska. Þar með hafa þeir öðlast hæfileika til þess að geta sjálfir greint, rannsakað og athugað. Eftir því sem þessi þróun færist í aukana, krefjast menn í vaxandi mæli rökstuðnings eða viðurkenningar vísindanna á sérhverri hugsun eða humyndir, eiga þeir að veita henni viðtöku sem sannindum. En það væri mjög ósanngjarnt að ásaka þessa menn fyrir framkomu þeirra. Því að þeim er ómögulegt að trúa á kenningar trúarhugmyndanna, einmitt fyrir það, að þær eru aðeins birtar sem hreinar niðurstöður eða staðhæfingar án þeirrar rökréttu eða vísindalegu uppbyggingar, sem þær hvíla á. Það er samkvæmt þessu, að táknmyndabók þessi og aðalrit það, sem hún er viðauki við, hefur verið samin. Nefnd bók er sem sé samin þeim mönnum til hjálpar, sem engan veginn geta trúað einum saman staðhæfingum, nema þær byggist á skynsamlegum rökum, en leita þó engu að síður með heilum huga og hjarta að réttlætingu dómsdags-ástandsins, réttlætingu, sem þeir eru farnir að finna að hlýtur að eiga sér stað að baki skilningsleysis og sljóleika daglegs lífs. Hér er komsiskri þekkingarleit þessara manna ruddur vegur til þeirrar leifturskýru réttlætingar lífsins sjálfs á myrkrinu í heiminum, að það sé einn liður í sköpun hins eilífa viðhalds á grunntóni alheimsins: kærleikanum.
Tilvitnanir úr inngangi Martinusar að „Heimsmyndinni Eilífu, 1. bindi“ © 1981 Martinus Institut