Um Þriðja Testamentið

Þriðja Testamentið felur ekki í sér neinar kenningar. Þetta snýst í rauninni allt um reynslu- persónulega reynslu. Fyrir lesandanum getur það í fyrstu skilist sem kenningar. Og það ekki fáar! Það tekur tíma þar til kenningarnar hafa verið meðteknar og orðnar að persónulegri reynslu. „Hversu langan tíma?“- gæti einhver spurt sig. Einn dag? Nokkrar vikur? Aldir? Fimm æviskeið á þessari jörðu? Hver veit.

Eilífðin

Í Þriðja Testamentinu er lífið séð frá eilífu sjónarmiði. Lífið er ekki skapað. Við erum ódauðleg. Skapað efni er bundið fæðingu og dauða. Þú og ég erum ekki skapað efni. Verkfæri okkar eru það. Líkami og hugsun tortímast. Þau breytast. Sem betur fer! Lífið, skaparinn, tortímist ekki. Þú ert hluti af heildinni. Heildin hvílir í eilífðinni og varanleikanum. Eilífðin er nafnlaus. Hún einfaldlega er. Þegar við upplifum þetta, erum við „eitt með föðurnum“, líkt og Kristur.


Alkærleikur

Samkvæmt Þriðja Testamentinu þá erum við meistarar tíma og rúms. Alkærleikur opnar glugga sálarinnar út til eilífðar og óendanleika. Alkærleiki er uppspretta þekkingar. Við finnum okkur sjálf, ódauðleika. Mörk tíma og rúms hverfa. Við sköpum okkar eigin örlög. Erum við hamingjusöm? Ekki alltaf en við þróumst og lærum í gegnum mörg líf hér á jörðu.

Réttlæti

Alls staðar ríkir ást og tilgangur. Jafnvel þegar útlitið virðist hvað mest óreiðukennt. Lögmálin eru eilíf, þau eru ekki fundin upp. Ekkert frekar en lífið sjálft. Allt sem við gerum kemur til okkar aftur. Fyrr eða síðar. Gott sem illt. Við höfum yfir ótakmörkuðum tíma að ráða. Þess vegna er lögmálið að elska náungann eins og sjálfan sig æðsta takmarkið í lífinu. Við uppskerum svo sem við sáum. Þetta kallast lögmál orsaka og afleiðinga.

Einkenni vanþekkingar

Að þekkja ekki sjálfan sig skapar vandamál í okkar eigin huga og gagnvart meðbræðrum okkar. Þessi þjáning er uppfylling á gömlu spádómunum um „Dómsdag“. Þriðja Testamentið segir að þessi þjáning, tilkomin vegna vanþekkingar, muni leiða okkur að sömu niðurstöðu, kærleika.


Andleg vísindi

En þessu stigi alkærleika er ekki unnt að ná fyrirhafnarlaust. Þessu hárfína jafnvægi verður einungis náð stig af stigi í gegnum þróunina. Jafnvel viska er þróunarferli. Markmiðið með þessu ferli er hin endanlega þekking á sannleikanum. Til þess að ná þessu stigi verður sérhver einstaklingur að rannsaka lífið á eigin vegum, en í þessu ferli geta greiningarnar orðið honum til aðstoðar. Þessi „stig af stigi rökhyggja“ leiðir okkur að hinni kosmisku lífssýn...

presse foto 03 th
Hver er Martinus?

Hver er þessi maður, er álítur sig hæfan til þess að útskýra leyndardóma lífsins? Í formála að meginverkinu innan Þriðja Testamentisins , „Livets Bog“, skrifar Martinus (1890-1981) : „Þar sem mitt eigið líf er þess eðlis að mér hefur af eigin reynd verið unnt að skynja ofangreinda þekkingu í svo hreinræktaðri mynd að hún réttlætir á allan hátt hin guðdómlegu orð: „Sjá allt er harla gott“, og getur því aðeins verið beint og algert svar við spurningunni sem stöðugt er tímabær í heiminum: „Hvað er sannleikur?“, hef ég talið það skyldu mína að gera þessa skynjun mína eða þekkingu almenningi aðgengilega, og það er einmitt þessi frumþekking mín á hinum alheimslegu raungildum, sem drottna yfir alheiminum í mynd yfirjarðneskra forsjónar eða guðdómlegrar veru, sem ég er að leitast við að birta, þar sem er „Bók lífsins“ („Livets Bog“ ) eða „Viskan eilífa“.“ (Bók Lífsins I, 7 gr.)

DTT
Hvernig Þriðja Testamentið getur komið að notum

„Á ofangreindan hátt hef ég skynjað lífið sem geislandi ljós og fullkomnun, og verurnar sem „syni Guðs“. Enn fremur hefur mér orðið ljóst, að kærleikurinn er mesta aflið í allri tjáningu, því að þetta, „að vera öllum sem maður kemst í snertingu við til gleði og blessunar“, er hið eina sem getur komið einstaklingnum til skilnings á sjálfum sér, sínum guðdómlega föður og ríkjandi heimsskipan, og jafnframt hið eina, sem fær leyst hann frá eða losað við allt það, sem heyrir til hugtakinu „sársauki“, og loks, að örlög sérhverrar veru myndast af þeim afleiðingum sem hún er sjálf orsökin að. Ég hef því fundið að ég gæti komið að notum sem hjálpandi hönd öllum þeim sem leita sannleikans, föðurins eða guðdómsins og öllu því, sem faðirinn hefur veitt mér í mynd umhverfis, með því að leiða í ljós vitundarástand mitt með birtingu mynda í ræðu og riti, og með breytni minni.“ (Bók lífsins I, 19. gr)

Málsvörn allra lifandi vera

„Faðirinn hefur látið skynjun minni, lífsreynslu eða vitundarástandi vera þannig farið, að frásögnin í Bók lífsins getur birt þá staðreynd, að verurnar eru „synir guðsins“, jafnframt því sem hún sýnir á náið innbyrðis samband trúarbragðanna, sem eru eins og geislastafir frá einu og sama ljóshafi, um leið og hún er málsvörn allra lifandi vera. Með því hefur á dásamlegan hátt gert Bók lífsins að tæki til þess að benda á og fjarlægja síðustu leifar fávisku þeirra tegundar, er skaðar umburðarleysi og fylgifiska þess, „þjáningarnar“. Fáviska er sem sé hin sanna orsök alls þess, er heimurinn kallar „hið illa“. Þar sem fáviska er fjarlægð þar hættir hið svonefnda „illa“ að vera til. “ (Bók Lífsins I, 19. gr)

Engin trúarbrögð, engar trúarjátningar

„Bók lífsins er frásögn af þessum altæku „trúarbrögðum lífsins“ í reynd, og hefur verið samin í þeim tilgangi að örva og þroska hæfileika hvers einstaklings til þess að skilja sjálfur nefnd trúarbrögð, þannig að hann verði fær um að sjá það sjálfur, hvað hann má og má ekki, hvað er raunhæft og hvað óraunhæft, - ekki út frá Bók lífsins, heldur út frá beinni ræðu lífsins sjálfs. Það má því ljóst vera, að bók lífsins á ekki á nokkurn hátt að hvetja til stofnunar trúarbragða eða trúarjátningar, einkum vegna þess að trúarbrögð lífsins viðurkenna allar lifandi verur, eins og fyrr segir, bæði trúaða og trúlausa, bæði svokallaða „heilaga“ og svokallaða „óguðlega“, bæði dýr og menn sem fædda meðlimi sína, iðkendur og tignendur.“ (Bók lífsins I, 15. gr.)

Tilgangur þjáninganna

„Ég sá, að ég var ódauðleg vera, og að allar aðrar verur tilverunnar voru eilíf fyrirbæri, sem höfðu, eins og ég sjálfur, óendanlega keðju undangenginna æviskeiða að baki, og að öll höfðum við þróast frá lægra, frumstæðum lífmyndum upp í núverandi ástand okkar, og að núverandi ástand var aðeins tímabundið þrep í þessum þróunarstiga, og við vorum á leið til undursamlega háþroskaðra tilveruforma í fjarska framtíðarinnar. Ég sá, að alheimurinn myndaði eina stófenglega lifandi veru, þar sem allar aðrar verur voru líffæri, hver um sig, og að við öll, dýr, jurtir og steinar, mynduðum eina fjölskyldu, sem segja mátti um á líkingamáli, að væri af sama holdi og blóði. Ég sá lýsandi og leiftrandi heima, með undursamlegum mannverum, sem að siðgæði, hugsjónum og guðdómlegu samræmi við lögmál tilverunnar tóku almennum jarðbúum jafnlangt fram og gróðurvinin eyðimörkinni. En ég sá einnig heima, sem voru miklu lægra eðlis heima, þar sem villimennskan var svo allsráðandi, að hinar lifandi verur þar urðu að drepa til þess að lifa. Lífsskilyrðin voru sem sé háð því að þverbrjóta lögmál tilverunnar, og þá urðu þessir heimar hinir hræðilegustu aðsetursstaðir sjúkdóma og neyðar, eymdar, sorgar og þjáninga, með öðrum orðum sá flokkur hnatta, sem jörðin er ekki með öllu óskyld. Enn fremur sá ég, að myrkrið eða hið svokallaða „illa“ var í rauninni þróunarskilyrði þeirra eiginleika einstaklinganna, sem eru fortakslaus nauðsynlegir til þess að hinir sömu einstaklingar fái síðar skynjað lífið í hinum æðri heimum sem hamingja eða sælu og komist um leið til skilnings á því, að „myrkrið“ er í kosmískum skilningi jafnmikil blessun og ljósið, og að frá guðdómlegum sjónarhóli er allt harla gott. En ég fann jafnframt, að engin vera myndi nokkru sinni fá skynjað þess þekkingu né veitt henni viðtökur sem sannindum, fyrr en kærleikshæfileiki hennar hefði tekið slíkum þroska, að hún gæti einungis sýnt öllum lifandi verum ástúð og kærleika, og gæti því ekki misnotað nefnda þekkingu til varnar eigingjörnum eða kærulausum athöfnum. Ég fann þess vegna, að um alheiminn allan streymdi óendanlegur kærleikur og speki. Hvert sem ég leit í myrkrinu, tók að birta, er ég leit þangað. – Ég var orðinn minn eigin ljósgjafi. Eldskírnin, sem hafði hlotnast, og sem ég get ekki lýst nánar hér, hafði því látið eftir sig þá staðreynd, að í mér höfðu losnað úr læðingi alveg nýir skynjunarhæfileikar. Hæfileikar, sem gerðu mér kleift – ekki skamma stund í senn, heldur þvert á móti í stöðugri vökuvitund – að skynja þau andlegu öfl, sem allt hvílir á, hinar ósýnilegu orsakir, hin eilífu grundvallarlögmál alheimsins og frumöfl að baki efnisheimsins. Tilveran var mér því ekki lengur óráðin gáta. Ég hafði skynjað líf alheimsins og hlotið vígslu í „hinu guðdómlega sköpunarlögmáli“. “ (Bók lífsins I, 21. gr.)

Allir munu vera fullkomnir

„Þessi alheimsskynjun mín og samsvarandi ástand stjórnaði síður framkoma minni í  heiminum og sköpun „ Bókar lífsins“. En þar sem hver einstaklingur á fyrir sér að reyna þetta sjálfur, eins og áður segir, þegar hann hefur náð því þróunarstigi, sem til þess þarf, þá er ljóst, að ég nýt engra forréttinda með tilliti til skynjunargáfna, eða er nokkur undantekning frá reglunni. Í hinni eilífu þróun get ég því ekki verið agnarögn meira en það, sem allar aðrar verur, sem lengra eru komnar en ég, hafa verið, og allar aðrar verur, sem skemmra, eru komnar, munu verða.“ (Bók Lífsins I, 1. gr.)

Biblían og Þriðja Testamentið

Samkvæmt Martinusi þá inniheldur Biblían hinn æðsta trúarlega boðskap í heiminum. Hann segir að það eru ekki til betri leiðbeiningar um leiðina til Guðs og hamingjusamra örlaga en þær sem þegar hafa verið afhentar mannkyninu í, til dæmis, Fjallræðu Jesú Krists. Það er ekki til æðra boðorð en „Elska skaltu Guð af öllu hjarta og náungann eins og sjálfan þig“.

Þriðja Testamentið hefur á engan hátt verið skapað til þess að leiða fólk frá þessum eilífu sannindum, þvert á móti hefur það verið skapað til þess að sýna að þau tjá vísindaleg raungildi. Allar þær hörmungar og heimsstyrjaldir á okkar tímum virðast kalla á áminningu á nefndum sannindum.

Framhald af ætlunarverki Krists

Er það mögulegt að réttlæta framhald af Biblíunni, út frá því sem Kristur hefur sagt okkur?

Í Jóhannesarguðspjalli, 16. Kafla, segir: „Enn hef ég margt að segja yður en þér getið ekki borið það nú. En þegar hann kemur, andi sannleikans, mun hann leiða yður í allan sannleikann. Það sem hann segir yður hefur hann ekki frá sjálfum sér heldur mun hann segja yður það sem hann heyrir og kunngjöra yður það sem koma á. Hann mun gjöra mig dýrlegan, því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður.“ (Jóh. 16:12-15) Út frá þessari tilvitnun má álykta að Kristur hafi ekki geta sagt frá öllu sem hann vissi. Ekki einu sinni hinir persónulega útvöldu lærisveinar gátu skilið það allt. Samkvæmt Kristi myndi sannleikurinn um Guð og leyndardómar lífsins verða kunngjörðir síðar.

Vígsla Martinusar

Martinus útskýrir hina andlegu reynslu sem færði honum eilífðarvitundina, forsenduna fyrir því að hann gat ritað Þriðja Testamentið, á eftirfarandi hátt:

„Sá „guðs andi", sem samkvæmt biblíunni „sveif yfir vötnunum", sá „eldur" sem „brann í runninum" fyrir Móses, sá „eldur", sem bar Elías til himins, sá „eldur", sem Jesús „ummyndaðist" í á fjallinu, sá „eldur", sem birtist yfir höfðum postulanna, og seinast breytti Sál í Pál á leiðinni til Damaskus, sá „eldur", sem um allar aldir hefur verið „Alfa" og „Omega" í sérhverju formi æðstu sköpunar, birtingar eða opinberunar, logaði hér fyrir mínum eigin augum, brann í mínu eigin brjósti, mínu eigin hjarta, umlukti mig allan. Mér fannst ég baðast í eldhafi kærleikans. Ég var við upphafið, við sjálfa uppsprettu alls þess, sem skapar hlýju og umhyggju föður og móðir fyrir afkvæminu, skapar gagnkvæman unað í ástarleik ungra elskenda. Ég sá þann kraft, sem lætur höndina undirritað náðun, aflétta þrælahaldi, vernda lítilmagnann, litla dýrið jafnt sem veikburða gamalmennið. Ég sá það sólskin, sem brætt getur ísinn og fjarlægt kuldann úr hverri sál, breytt ófrjóum eyðimörkum vonleysis og bölsýni í frjósamar, sólríkar ekrur vitundarinnar, vermt hjartað, örvað skilninginn og með því fengið einstaklinginn til að fyrirgefa ranglætið, elska óvininn og skilja glæpamanninn. Mér var sem ég hvíldi við brjóst almáttugs Guðs. Ég dvaldi í uppsprettu alkærleikans, sá hina guðdómlegu fullkomnun, svo að ég var eitt með veginum, sannleikanum og lífinu, eitt með föðurnum mikla." (Úr Upphafi köllunnar minnar)

presse foto 01 th

„Huggarinn, Heilagur andi“ er andleg vísindi

„Hvað er „Huggarinn, Heilagur andi“? Hann er klárlega ekki persóna, nýr Kristur, sem mun koma til þess að vera milliliður milli Guðdómsins og manneskjanna. Hann er vísindi um alheiminn og þar með um Guð. Hann á að vera útskýring á lausninni að leyndardómi alheimsins. Þess vegna er hann bók sem fólk getur lesið, líkt og það getur lesið biblíuna. Þessi „Huggari, Heilagi andi, sem Faðirinn mun senda“ sem Kristur spáði að myndi koma, er þess vegna „bók lífs“ eða „bók þekkingar“ sem mun vera opinberuð mannkyninu.

LBall

En bók sem inniheldur hinn raunverulega sannleika um Guðdóminn og alheiminn getur aðeins verið framhald að kosmisku heimsmenningu sem Kristur hóf fyrir tvö þúsund árum síðan og það sem við þekkjum sem „Kristni“. Þetta á að vera bók sem getur þjónað sem vitsmunalegur en ekki kreddufastur námsgrundvöllur í Kristni. Þetta á að vera bók sem sýnir hina fullgerðu Kristnu heimsmenningu í efnislegum sem og andlegum birtingarmyndum. Þetta á að vera bók sem lýsir ljósi í gegnum hámark bæði ljóss og myrkurs og meðfylgjandi áhrifum þeirra á lífsvirkni alheimsins- ódauðleika lifandi vera.

Þetta þarf að vera bók sem sýnir óendanleikan og eilífðina sem aftur leiða af sér hina lifandi lífsvirkni í mynd „tíma“ og „rúms“. Bók þar sem æðsta niðurstaðan er „altæk þekking“ og „almáttur“ sem í sameiningu mynda, þegar fullkomið jafnvægi ríkir, alkærleika, og þar með er það hið sama og hinn eilífi lífsneisti lifandi vera. Hér höfum við komið að „fasta punkti“ alheimsins, og upphaf hans „Föður Lífsins“, hinn algjöri og altæki eilífi Guðdómur.

Slík bók getur ekki hjá því komist að innihalda „hið mikla“, er Kristur átti eftir að segja mannkyninu, en sem Guð myndi færa framtíðarkynslóðum síðar meir. Slík bók getur ekki hjá því komist að vera „Huggarinn, Heilagur andi“. Vegna grundvallarstoðar sinnar innan kristninnar og vegna sambands hennar við hin tvö testamenti biblíunnar þá er réttmæti í því að kalla hana „Þriðja Testamentið“.

Umrætt „Þriðja Testamenti“ er því bók um visku eða þekkingu. Hún sýnir okkur eilífu útgeislun „alkærleikans“. Hún bendir okkur á þá „mynd af Guði“, sem allar lifandi verur í gegnum endurfæðingu eða endurholdgun eru skapaðar eftir.

Í "Þriðja Testamentinu" eru allar ófullgerðar veru, þ.e.a.s. "efnislegar verur", dýr jafnt sem manneskjur, sýndar á sömu leið, leið sem leiðir óhjákvæmilega til alheimsvitundar og þar með upplifun á gullnum dýrðarljóma alheimsins, hinu gullna ljósi, hins eilífa lífsneista lifandi vera og þar með til "Kristsvitundar" og þess að vera "eitt með Guði". Kristur var nú fyrirmyndin að sköpun vitundar Guðs í manneskjum. Sagði Kristur ekki einmitt: "Mér er veittur almáttur á himni sem og jörðu"? Hvernig ætti hann annars að geta verið í Guðs mynd án þessa hæfileika? Og hvernig ætti einhver önnur vera að geta verið sköpuð í þessari sömu mynd án þess að þurfa að vera leidd til þessa sama hæfileika?

"Huggarinn, heilagur andi" er þannig, í mynd þessa "Þriðja Testamentis", framhald af boðskap Krists. Hann er framhald af boðskap hins eilífa Ljóss frá “stjörnunni yfir Betlehem”. Hér í þessu eilífa ljósi er opinberað fyrir heiminum lausnin á stærstu lögmálum lífsins og þar með óhagganlegum undirstöðum kristindómsins, lífsgrundvöllur hamingju og sælu”. (Tilvitnanir úr handriti skrifuðu af Martinusi á síðustu árum lífs hans sem hafa ekki enn verið gefin út í heild sinni. Frá Inngangi að Þriðja Testamentinu).

Ástandið í heiminum eða hinn boðaði „dómsdagur“

Þessi ábending er nauðsynleg; það sýnir ástandið í heiminum nú á dögum ljóslega. Það er þannig, að því verður helst lýst sem dómsdegi eða ragnarökum, sem Kristur sagði að koma myndi yfir mennina á hinum "síðustu tímum". Er þess ekki enn fremur getið í frásögnum biblíunnar um framtíðina, að "djöfullinn æði í makt og miklu veldi"? - Hvað er það, sem við höfum séð í mynd tveggja heimsstyrjalda, er geisað hafa í mannheimi á þessari öld? - Höfum við ekki orðið vitni að tilraunum til að eyða milljónaborgum með íbúum þeirra og menningarverðmætum? - Já, hefur ekki jafnframt verið reynt að útrýma heilum kynflokkum manna? - Höfum við ekki séð milljónir manna myrtar - ekki eininguis á vígvöllunum sjálfum í vörn fyrir land sitt eða í árás á líf og eignir annarrar þjóðar, heldur hafa óbreyttir borgarar verið hnepptir í gasklefa og hreinlega myrtir þar algerlega utan við lög og rétt og vitaskuld án nokkurs minnsta tillits til boðorða lífsins: "Þú skalt ekki morð fremja", "Þú skalt fyrirgefa náunga þínum", "Slíðra þú sverð þitt, því að allir þeir, sem grípa til sverðs, munu farast fyrir sverði". Er ekki öll fylling lögmálsins einmitt boðorðið mikla: "Elska skaltu Drottinn Guð þinn yfir alla hluti fram og náungann þinn eins og sjálfan þig"? - Hvar er trúin á kærleiksríkan Guð og raunhæfa kristna menningu í þessari dómsdagstilveru, þar sem aragrúi manna, börn jafnt sem fullorðnir, hafa þjáðst til dauða í hinum hryllilegu fangabúðum eða aftökustöðum, sem vörpuðu djöfullegum helskugga yfir alla jörð? (Heimsmyndin Eilífa (1968): Inngangur, 2. gr.)

Mennirnir vaxa upp úr trúarkreddum

Hvers vegna hafa hinar trúarlegu hugsjónir, sem boðaðar hafa verið mönnunum í þúsundir ára, ekki getað hindrað þetta djöfullega athæfi og afleiðingar þess: Dauðahryglu, örkuml, sjúkdóma, örbirgð og siðleysi? - Kemur það ekki einmitt hér í ljós, að kenningar þær og hugsjónir, sem frá trúarbrögðunum stafa, hafa ekki getað frelsað heiminn frá þessu skelfingartímabili dómsdagsins, hversu guðdómlegar sem þær annars hafa verið? - Já, sjáum við ekki einmitt, að mennirnir blátt áfram vaxa upp úr þessum hugsjónum, næstum eins og börn vaxa upp úr fötum sínum og skóm? - Þá er eðlilegt að menn glati hæfileikanum til þess að trúa á þær? - Hafa ekki milljónir manna orðið efnishyggjumenn, guðleysingjar? - Er það ekki enn fremur óhagganleg staðreynd, að þessi tala fer sívaxandi? - Að í kirkjum eða guðshúsum standa sífellt fleiri stólar auðir við guðsþjónustur? Er það ekki um leið orðið staðreynd, að æðstu alheimssannindi lífsins, trúarleg boðorð eða kenningar er orðið að dulspeki, orðið að einhverju, sem blátt áfram er talið að viti bornir menn geti ekki lagt sig niður við að stunda eða trúa á? Eru það mennirnir, sem eitthvað er bogið við, eða eru það trúarlegu hugtökin sem eru rangsnúin? (Heimsmyndin Eilífa (1968): Inngangur, 3. gr.)

Menn, sem veita hugmyndum eða kenningum trúarlegs eðlis viðtöku án þess að spyrja um rökas

Í altækum skilningi er ekkert að mönnunum eða trúarhugmyndunum. Trúarhugsjónirnar eru snilldarlega aðhæfðar þróunarstigi þeirra manna, sem þær voru gefnar. Og þessum mönnum eru þær grundvöllurinn, sem allt hvílir á. En mikill hluti mannkynsins er vaxinn upp úr þessu þróunarstigi. Þeir lifa í allt öðru hugrænu andrúmslofti en því, sem hinar trúarlegu niðurstöður eða kenningar voru sniðnar fyrir, og viðkomandi menn gátu aðhyllst til fulls, sökum þess að eðlishvatirnar áttu ennþá ríkari ítök í þeim en vitsmunirnir. Þeir voru ekki ennþá svo þroskaðir vitsmunalega, að þeir krefðust staðfestingar skynseminnar á hugsjónum eða kenningum trúarbragðanna eða heimtuðu rök fyrir þeim. Þeim var nóg, að þær voru útgefnar af yfirvöldum. (Heimsmyndin Eilífa (1968): Inngangur, 4 gr.)

Menn þeir sem táknmyndirnar og jafnframt aðalritið, sem þær eru viðauki við, eru ætlaðar.

En þannig er þetta ekki nú á dögum. Nú hefur geysilegur fjöldi manna misst hæfileikann til þess að trúa, því að eðlisávísun þeirra hefur meira eða minna látið undan síga fyrir vitsmunaþroska. Þar með hafa þeir öðlast hæfileika til þess að geta sjálfir greint, rannsakað og athugað. Eftir því sem þessi þróun færist í aukana, krefjast menn í vaxandi mæli rökstuðnings eða viðurkenningar vísindanna á sérhverri hugsun eða humyndir, eiga þeir að veita henni viðtöku sem sannindum. En það væri mjög ósanngjarnt að ásaka þessa menn fyrir framkomu þeirra. Því að þeim er ómögulegt að trúa á kenningar trúarhugmyndanna, einmitt fyrir það, að þær eru aðeins birtar sem hreinar niðurstöður eða staðhæfingar án þeirrar rökréttu eða vísindalegu uppbyggingar, sem þær hvíla á. Það er samkvæmt þessu, að táknmyndabók þessi og aðalrit það, sem hún er viðauki við, hefur verið samin. Nefnd bók er sem sé samin þeim mönnum til hjálpar, sem engan veginn geta trúað einum saman staðhæfingum, nema þær byggist á skynsamlegum rökum, en leita þó engu að síður með heilum huga og hjarta að réttlætingu dómsdags-ástandsins, réttlætingu, sem þeir eru farnir að finna að hlýtur að eiga sér stað að baki skilningsleysis og sljóleika daglegs lífs. Hér er komsiskri þekkingarleit þessara manna ruddur vegur til þeirrar leifturskýru réttlætingar lífsins sjálfs á myrkrinu í heiminum, að það sé einn liður í sköpun hins eilífa viðhalds á grunntóni alheimsins: kærleikanum. (Heimsmyndin Eilífa (1968): Inngangur, 5. gr.)

Að þekkja sjálfan sig er hið sama og að þekkja Guð

Námið á Þriðja Testamentinu er líkt og skoðunarferð um eilífan heim skínandi fegurðar. Undir góðri leiðsögn rökfræðinnar erum við leidd, skref fyrir skref, að innri athvarfi okkar eigin Égs, þar sem við upplifum eilífa og ódauðlega tilveru handan tíma og rúms. Hér, í okkar innsta kjarna, erum við sameinuð og "eitt með Guði".

Á þessari leið uppgötvum við að hinn eilífi og altæki Guðdómur lifir í öllu sem gerist, og býr í sérhverri sveiflu eða hreyfingu í hinum skapaða heimi. Hinn hagnýti tilgangur með útskýringum Þriðja Testamentisins á heiminum er að kenna okkur að sjá, heyra og skilja hið guðdómlega mál sem gjöf sem beint er að okkur persónulega og í kærleika af Forsjóninni, og að læra að elska náunga okkar - það er að segja, hverja einustu veru sem verður á vegi okkar - sem okkur sjálf. Þegar við höfum meðtekið með okkar eigin augum hina guðdómlegu heimsskipan og höfum náð með okkar eigin skilningi að sjá að allar lifandi verur í hinum efnislega heimi eru að þróast, eru á leiðinni að verða fullkomnar í Guðs mynd og líkingu, erum við á ný á sama máli og sameiginlegur skapari okkar um að "allt sé harla gott".

Inngangur, niðurstaða og samantekt unnin af Stiftelsen Tredje Testamentet


© Tilvitnanirnar úr Þriðja Testamentinu eru varðar höfundarétti af The Institute of Martinus Spiritual Science, Kaupmannahöfn. Danmörku. Öll réttindi áskilin.