Þeir sem eru fyrstir manna til að trúa opinberunum fortíðarinnar, en síðastir allra til að trúa að þær eigi sér stað nú á dögum.
Martinus skrifaði þetta árið 1936:
"Þar sem starf mitt í formi andlegra vísinda hefur smám saman náð til fjölda manns og orðið þeim beinlínis grundvöllur lífsins, hef ég talið það geta orðið þeim að liði að segja lítið eitt frá atburðum þeim sem urðu þess valdandi að ég hlaut þessa andlegu köllun.
Þessir atburðir, sem vöktu mig til köllunar, eru svo sjaldgæfir og óvenjulegir í eðli sínu, að lýsing þeirra ein saman í smá atriðum getur í mesta lagi aðeins verkað á hinn óinnvígða sem furðulegt og í hæsta máta ótrúlegt ævintýri, en hjá þeim verum sem eru umburðarlausar og hafa lítt þróaðan kærleika mun það blátt áfram vekja hneykslun og í skjóli hugtaksins „réttlát reiði“ munu þær líta á mig sem „guðlastara“ „haldinn illum öndum“, telja að ég gangi með „stórmennskubrjálæði“ eða eitthvert annað óeðli eða geðveiklun. Já staðreyndirnar hafa meira að segja sýnt að til eru þeir, sem líta svo á að ég sé sjálfur „andkristur“, „falsspámaður“ eða einhvers þess háttar.
Þetta fólk hefur smám saman látið sefjast af þeirri skoðun eða bundið sig rígfast við hana, að hinar svokölluðu „opinberanir“ séu fyrirbæri, sem aðeins verði tengd við persónur biblíunnar fyrr á tímum. Þótt prédikað hafi verið í samræmi við vitundarstig þessara manna árþúsundum saman frá prédikunarstólum í borgum og sveitum, frá ræðustólum undir berum himni í skógum og á ströndum, á götum og torgum, og hrópað til mannanna, að „andi Guðs sveif yfir vötnunum“,– „Guð talaði“ til Adams og Evu. – „Guð Talaði“ til spámannanna, – Jesú „ummyndaðist“ á fjallinu, – postularnir urðu „yfirskyggðir heilögum anda“, er birtist sem „eldlegar tungur yfir höfðum þeirra“,– Páll „sveipaðist hvítu ljósi“ á leiðinni til Damaskus o.s.frv., – þá munu flestir á þessu sama vitundarstigi verða síðastir manna til að skilja, síðastir til að trúa því, að slíkir atburðir gætu alveg eins vel átt sér stað nú á dögum, gætu gerst hér mitt á meðal vor á hinin nýtískulegu og vísindalegu tækniöld.
Fólki þessa vitundarstigs finnst það ofur eðlilegt, að „andi Guðs“ birtist Móse í mynd „brennandi þyrfnirunnans“ og „hið hvíta ljós“ leiftraði um Pál. Þótt sá fyrrnefndi væri morðingi og hinn síðarnefndi harðsnúinn andstæðingur og ofsækjandi Krists, eru menn ófibanlegir í trúnni á sannindi þessara frásagna. En komi maður fram í dag og segi frá því, að hann hafi verið „yfirskyggður heilögum anda“, að „hann og faðirinn séu eitt“, að hann hafi sjálfur orðið „vegurinn, sannleikurinn og lífið“, verðu honum ekki trúað, heldur þvert á móti hneykslast á honum án tillits hversu heiðarlegur og hreinlífur hann er og jafnvel þótt hann geti stutt staðhæfingu sína vísindalegum röku.
En þetta er alveg eðlilegt. Með tilliti til rökhugsunar og greininga á trúarlega sviðinu eru þessir menn ekki ennþá frjálsir. Þeir eru ekki ennþá svo sjálfstæðir, að þeir þori að segja skilið við opinberar skoðanir „hópsins“, sem eru þeim ófrávíkjanleg, óskráð lög, eða sá göngustóll, sem þeir verða ennþá að notast við til þess að halda sér uppréttum í trúarlegum efnum, á meðan þeir eru ennþá of ósjálfstæðir í hugsun til þess að geta gengið hjálparlaust um völundarhús lífsgátunnar. Án stuðnings hinna gömlu trúarlegu erfðavenja og kenninga hlyti lífið að verða þeim eyðimörk, þar sem þeir mættu sig hvergi hræra og mundu andlega séð svelta til bana eða farast hörmulega á annan hátt.
Dæmið Eigi
Þessi frásögn mín er ekki skráð handa ofannefndri manngerð. Ef hún á einn eða annan hátt skyldi samt sem áður berast þeim í hendur, þá vildi ég strax segja þeim þetta: Haltu þér fyrir alla muni að þeim trúarbrögðum, sem eru þér lífið eða hamingjan, sem þú telur veginn, sannleikann og lífið. Láttu þér ekki detta í hug, að ég vilji í einu einasta atriði hrófla við æðsta lífsgrundvelli þínum. Ég óska þess alls ekki að veikja trú nokkurs einasta manns á það, sem er í sannleika fagurt og göfugt, satt og þess vegna kærleiksríkt, guðdómlega örvandi í hinni daglegu tilveru.
En minnstu þess, að það væri brot á kærleikslögmálinu að dylja þig þess, að þekking þín er takmörkuð, og að utan þessara takmarka ert þú umluktur svæði, þar sem þú samkvæmt því getur ekki „vitað“, og hlýtur því óhjákvæmilega aðeins að „trúa“. Utan þess svæðis ert þú aftur umluktur óendanlegu svæði, þar sem hundrað prósent fullkomið þekkingarleysi þitt eða algert vitundarleysi er eins og dimmasta nótt. Hvað þessi myrka nótt kann að bera í skauti sér, veist þú ekkert um. Þú getur því ekki haft myndugleika eða réttmæta hæfni til þess að dæma um frásagnir eða afhjúpanir frá þessu svæði, þar sem þú ert gersamlega ókunnugur. Aðeins á því litla sviði eða umhverfi, þar sem þú stendur föstum fótum á grunvelli hreinna stærðfræðilegra staðreynda, fullkomlega sjálflifaðrar reynslu, getur þú talað af þekkingu.
En strax á því sviði, þar sem þú „trúir“ aðeins, getur þú ekki lengur verið dómbær. Hér byggir þú á því, sem aðrir hafa sagt þér, sem aðrir hafa skrifað. Með öðrum orðum, hér ert þú aðeins lærisveinn, lærlingur, nemi. Þú hefur ekki náð því þroskastigi, að þú sért fullnuma. Þú hefur ekki ennþá hlotið námsskírteini, ekki útskrifast, ekki tekið sveinspróf.
En er þá ekki eðlilegra og þess vegna kærleiksríkara, að neminn viðurkenni réttilega þessa stöðu sína, sem hlýtur að vera í því fólgin að „hlýða á“, í stað þess að telja sig færan um að koma fram sem „dómari“, sem „fræðari“, og því í rauninni þótt óafvitandi sé, gerast „falskur“ meistari eða fræðari? Þegar sá er „trúir“ vill fara að kenna þeim sem „veit“, er það rétt eins og neminn ætlar að kenna meistaranum. Slík afstaða er óeðlileg, og allt sem er óeðlilegt, er andstætt kærleikanum. Sá er „trúir“ syndgar gegn eigin sannfæringu með því að setja ofan í þann er „veit“, og alveg óháð því þótt hann geri það jafnvel í góðri trú.
En er það ekki líka vegna þess, að skrifað stendur: „Dæmið eigi, því að með þeim dómi, sem þér dæmið aðra, munuð þér einnig dæmdir verða“?
Sá er þetta veit í raun og veru, hann dæmir ekki á þeim svæðum, þar sem hann ekki „veit“. Þeim ber því ekki að dæma, sem „trúir“. Það geta aðeins verið réttmæt forréttindi þess sem „veit“.
Hverjum frásögnin um upphaf köllunar minnar er ætluð
Ef þér berst í hendur eftirfarandi frásögn, sem segir frá núverandi æviskeiði mínu í stórum dráttum, er hefur mótast sem óslitin, stórfengleg opinberun guðdómlegrar visku, stöðug umbreyting trúar í vísindi, þá minnstu þess, að samkvæmt framansögðu á þessi frásögn ekki erindi til þín, ef þú fyrirfram telur þér hafa hlotnast allt í krafti „trúarinnar“, álítur þig „frelsaðan“, finnur þig „sælan“. Gerðu þér skiljanlegt, að frásögn mín er aftur á móti beinlínis ætluð öllum þeim mönnum, sem hafa náð því þróunarstigi að dæma ekki út frá ímyndun, út frá „trú“, heldur eru eingöngu hlutlausir sannleiksleitendur, sem alger þekking eða staðreynd er heilög, og hið eina takmark viðleitni þeirra og þar með dómgreindar þeirra og breytni.
Hví skyldu „opinberanir“ ekki eins geta átt sér stað nú á dögum og í fornöld?
Þín eigin trúarbrögð kenna þér, að til sé eitthvað, sem er „trúnni“ æðra, það er hin raunverulega sjálfsupplifun af ljósinu, og sé hún ekki fyrir hendi, hefði þér aldrei veist eða þú nokkru sinni öðlast hið guðdómlega ljós trúarinnar, myndir aldrei hafa orðið nokkurs var um Guðdóm, um hinar miklu niðurstöður lífsins eða hin eilífu sannindi: „Eins og maðurinn sáir, svo mun hann og uppskera“, „sælir eru hjartahreinir, því þeir munu Guð sjá“,– „elskið hver annan“,– „allt er harla gott“ o.s.frv., sem mynda einmitt í heild burðarás allrar tilveru.
Ef Móses, spámennirnir, heimslausnararnir, postularnir og aðrir boðberar viskunnar í veraldarsögunni hefðu ekki upplifað Guðs anda, hvernig hefði bilían eða aðrar guðdómlegar fræðibækur getað orðið til? Hvernig hefðir þú þá getað öðlast þá „frelsun“ eða „sælu“, sem nú er undirstaða allrar þinnar lífshamingju? Það er staðreynd, að þessir fyrrnefndu menn hafa fært hugarheimi mannkynsins ný, guðdómleg sjónarmið, en þar með er það einnig staðreynd, að þeir eru upphafsmenn einhvers, sem þeir hafa ekki lesið um áður, einhvers, sem aðrir hafa ekki getað sagt þeim. Þessi nýju sjónarmið hafa því myndast í þeirra eigin vitund, í þeirra eigin hugarheimi, eru því sjálfsupplifun og þar með frumþekking.
En þar sem að það þannig er staðreynd, að hin guðdómlega viska hefur öldum saman borist heiminum gegnum menn, sem til þess voru hæfir, því skyldi hún þá ekki halda áfram að birtast á sama hátt? Því skyldu slíkir menn aðeins vera sögulegur efniviður, aðeins tilheyra fortíðinni? Því skyldu slíkir atburðir í rauninni aðeins vera hugrænar fornminjar nú á tímum? – Væri það rökrétt að líta svo á, að hin vitra forsjón, sem þú á einn eða annan hátt trúir svo mjög á, vilji ekki alveg eins nú og áður birta hina háu visku sína gegnum lifandi menn, láta opinberanir sínar koma í ljós sem staðreyndir í holdi og blóði í dagsbirtu og rafljósi tuttugustu aldar, eins og á dögum og nóttum fyrri alda? – Getur sú skoðun verið rökrétt, að núverandi kynslóðir þurfi síður á því að halda að hljóta opinberun hinna miklu sanninda lífsins á sýnilegan hátt, sem áþreifanlegar staðreyndir í daglegu lífi, en kynslóðir fyrri tíma? – Er það ekki einmitt staðreynd, að vísindalegur hugsunarháttur nútímans grefur undan trúarhæfileikanum, og að hinum vísindalega hugsandi nútímamanni veitist ekki nærri því eins auðvelt að „trúa“ og þeim, sem hefur hina venjubundnu afstöðu?
Jesús boðar komandi opinberanir
Þegar maðurinn getur ekki „trúað“ vegna vísindalegrar afstöðu sinnar, þá er aðeins um eina leið að ræða, þar sem forsjónin getur komið þeim manni til hjálpar, sem svo er ástatt um, – ekki á þann hátt að vísa til opinberana fyrri tíma, því að þær hafa ekkert gildi í augum þess, sem ekki getur „trúað“ – heldur á þann hátt að endurtaka opinberun sína einmitt nú á tímum sem vísindalega staðreynd, sýnilega í núlifandi holdi og blóði, sýnilega í starfi og framferði, aðgengilega einlægri og hlutlausri rannsókn.
En er það ekki einmitt þetta, sem þín eigin trúarbrögð hafa kennt þér? – Hafa þau ekki einmitt sagt þér þetta með orðum Jesú: „Yður er það ekki gefið að skilja þessa hluti, heldur komandi kynslóðum“, - „en huggarinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, hann mun kenna yður allt og minna yður á allt, sem ég hef sagt yður“. „En þegar hann, sannleiksandinn, kemur, mun hann leiða yður í allan sannleikann, því að hann mun ekki tala af sjálfum sér, heldur mun hann tala það sem hann heyrir, og kunngjöra yður það sem koma á. Hann mun vegsama mig, því að af mínu mun hann taka og kunngjöra yður. Allt það, sem faðirinn á, er mitt; fyrir því sagði ég, að hann tæki af mínu og kunngjörði yður.“
– Þegar hér við bætist, ásamt öðrum fyrirheitum, að Jesús leggur hvað eftir annað mikla áherslu á „endurkomu“ sína, þá bendir það ekki sérstaklega til þess, að opinberanir fyrri tíma muni ekki endurtakast. Hvað er „huggarinn, andinn heilagi“?– Hvað er „endurkoma Krists“?– Eru þetta ekki einmitt hinar mestu opinberanir tilverunnar? – Og hvað eru „komandi kynslóðir“? Eru núlifandi kynslóðir ekki einmitt þessar „komandi kynslóðir“, miðað við daga Jesú í Palestínu? – Og er afstaða þessara sömu kynslóða ekki eimitt vísindaleg, eru þær ekki gæddar nokkru þróaðari hæfileikum til þess að skilja leyndardóm veraldarinnar vísindalega heldur en kynslóðir fyrri tíma? – Og er þetta ekki einmitt ástæðan til þess, að þær geta ekki lengur „trúað“, heldur krefjast „þekkingar“? –
Vertu því varkár, þegar þú dæmir aðra, því að ekkert veist þú um það, „hvenær allt þetta mun gerast“.– „Enginn þekkir daginn né stundina.“ – Þessir atburðir koma yfir sérhvern mann eins og „þjófur að nóttu“.
–Þótt þú fáir sjálfur fyllt vitund þína sælu, á grundvelli opinberana eða atburða fyrri tíma, veitir það þér alls engan rétt til þess að líta svo á að hið sama sé fullnægjandi eða nægjanlegt fyrir alla tíma og alla menn, því að ef svo væri, þá væri fyrirheit Jesú til „komandi kynslóða“ alveg óþarft og þýðingarlaust.
Samkvæmt þinni eigin trú, samkvæmt biblíunni, samkvæmt prédikun prestsins er því alls ekki útilokað, að nútíma menn geti orðið yfirskyggðir heilögum anda. Það er ekki óhugsandi, að Guð geti alveg eins „talað“ beint til manns tuttugustu aldar eins og manns í fornöld. – Það er engan veginn óhugsandi, að fátækleg mannvera í lágri stétt og stöðu, búi yfir slíkri andlegri innri gerð, að andi Guðs geti tekið sér bústað þar og þar með beinlínis komið í ljós í líkama núlifandi manns og þar með gert trúarlegar opinberanir fortíðarinnar að jafn raunhæfum staðreyndum á tuttugustu öld, og þær voru á fyrri öldum.
Aðeins í krafti kærleikans fá menn skynjað „heilagan anda“ eða „séð hinn vígða“
Lífið sjálft, þín eigin trú, brýnir í rauninni fyrir þér, samkvæmt framansögðu, ýtrustu varfærni í dómum. Þú veist ekki hvern þú hittir fyrir, þegar þú stendur frammi fyrir náunga þínum. Þú þekkir alls ekki til þess, sem dylst í fari hans. Þú veist ekki nema hann sé, eða verði, holdi klædd guðdómleg opinberum, veist ekki nema hann sé sendiboði Guðs til mannanna, nýr hjálpari í þjónustu heimsfrelsunarlögmálsins, jafnvel sjálfur heimslausnarinn. Þótt hann/hún tilheyri máske mjög lágri stétt eða neyðist á annan hátt til að lifa í nánd við „jötuna“ eða umhverfi hennar, þótt hann/hún fari kannski ekki í kirkju, sé ekki meðlimur þessa eða hins trúarflokksins eða hreyfingarinnar, jafnvel að því er virðist trúlaus, fæddur og uppalinn við aðstæður, sem þú mundir kalla „syndsamlegar“, til að mynda utan hjónabands, hvorki skírður né fermdur, – allt þetta er engin sönnun þess, að viðkomandi maður sé ekki gæddur guðdómlegri vitund, sé ekki bústaður heilags anda, – nema síður sé. Guðdómlegar opinberanir hér á jörðu virðast einmitt oftast eiga sér stað við hinar fátæklegustu aðstæður. Mesta heimslausn lífsins og æðsta vitundaropinberun á jörðu kom ekki frá skrautbúinni vöggu eða hásæti úr gulli, heldur frá jötunni og krossinum.
Farðu því að öllu með gát. Þú veist ekki nema þú standir frammi fyrir höfðingja frá æðra tilverusvið. Á þessum æðri sviðum gildir annars konar mat hvað varðar stöðu, framkomu og verðmæti en hið jarðneska, sem einkum miðast við ytri efnislegan glæsileika. Og síst af öllu skaltu láta þér detta í hug, að hinn vígði fari að segja þér hver hann er. Slík vera gengur um meðal mannanna, meðal fjöldans, sem þekkir hana ekki. Þar sem hún er ekki komin til þess að láta þjóna sér, heldur til þess að þjóna öðrum, er ekki óhugsandi að hitta fyrir slíka veru meðal verkafólksins, já, slíkur mikilleiki getur dulist í sendisveininum, ráðsmanninum, þvottakonunni, vélamanninum o.s.frv., en þú verður þess ekki var, ef þú berð ekki í brjósti slíkan kærleika til þessa fólks, að hún veki hjá þér því þann kærleika og traust til þín, að það opni þér hug sinn og hjarta. Svo lágar ytri stöður eru heldur ekki til þess fallnar að vekja virðingu og aðdáun fjöldans, því að auðæfi og glæsileiki í framkomu og lífsháttum er í meira áliti bæði hjá blöðunum, fræðimönnum og almenningi. Þú skalt því ekki vænta þess að öðlast hæfileika til að sjá hinn vígða, jafnvel þótt þú mætir honum í holdi og blóði, á meðan almenningsálitið, siðir og venjur, hvað maður geti verið þekktur fyrir o.s.frv., er ennþá alls ráðandi um hugsjónir þínar. Þú færð alls ekki annað að sjá en „jötuna“, ytra látleysi hans og smæð, og ef til vill bakmælgi, háð og spott, sem hinir óvígðu reyna stundum að eitra fótspor hans með. Vertu því varkár. Heilagur andi er, auk þess að vera hin æðsta þekking á Guði, einnig hinn æðsti kærleikur. En kæreikur þekkist eingöngu af kærleika, ef þú þess vegna átt nægan kærleika hið innra með þér, munt þú einnig uppgötva hina andlegu opinberun, heilagan anda eða hreinan guðdómlegan kærleika í hverjum sem er hversu aumum tötrum eða lörfum, sem hann kann að dyljast í. Þótt þér finnist þú sjálfur vera „frelsaður“, veitir það þér ekki nokkurn rétt eða hæfni til þess að dæma aðra Guðlegt ætterni þekkist aðeins á kærleikanum einum.
Hinn vígði kemur ekki til þess að stæla birtingu annarra vígðra meistara, heldur aðeins til þess að skapa nýtt víðsýni hugans, siðgæði og skilning á lífinu
Þegar andi Guðs yfirskyggir menn í líkamlegri tilveru, er það undantekningarlaust til þess að færa heiminum eitthvað nýtt, endurskapa eða þroska siðgæðið til enn hærri hugsjóna. Hinn vígði mun því aldrei fara að stæla það, sem þegar hefur verið birt eða opinberað af anda Guðs gegnum fyrri vígða meistara. „Ekki láta menn nýtt vín á gamla belgi“. Til þess er hinn vígði ætíð í heiminn kominn, að afhjúpa eða opinbera framhald hinnar guðdómlegu áætlunar og tilgangs með tilveru jarðneska mannsins. Hann mun því ætíð verða í andstöðu við gamlar erfðavenjur og kreddur, sem lokið hafa hlutverki sínu, og þar með rífa niður gamla fordóma. Ef hann gerði ekki einmitt þetta, ef hann léti sér nægja að segja aðeins það, sem þúsundir presta, trúboða og safnaðarforstjóra endursegja í dag um allan heim eftir fyrri tíma meisturum, og sagt hefur verið öldum saman, að hvaða gagni kæmi þá kenning hans? Til þess að endursegja eitthvað er engin þörf á yfirskyggningu heilags anda, til þess þarf enga vígslu enga alheimsvitund eða glöggskyggni. Hinn vígði kemur því ekki til þess að endursegja eða líkja eftir birtingu annara vígðra. Hann er eingöngu í heiminn kominn til þess að skapa nýjan efnivið til aukinnar andlegrar víðsýni mannkynsins, til þess að efla siðgæði og skilning á hinu sanna og raunverulega lífi að baki allra ytri fyrirbæra.
Það verður því aldrei lögð of mikil áhersla á það, að vera varkár, þegar þú heyrir einhverju haldið fram, sem þú hefur ekki vanist að viðurkenna sem siðgæði eða hugsjónir. Hugsast gæti, að hér væri á ferðinni nýr sendiboði Guðs til mannanna. Og setjum nú svo, að þú dæmdir hann, baktalaðir hann og ynnir gegn starfi hans, þá værir þú að vinna gegn Guði, vinna gegn hinum miklu fyrirheitum þinna eigin trúarbragða og þar með gegn fullkomnun mannnkynsins.
Þótt þú sért ef til vill prestur, Oxfordmaður, heimatrúboðssinni, aðventisti, mannfræðingur, guðspekingur, andahyggjumaður e.þ.h., þá leysir það þig ekki frá ábyrgðinni í þessu tilliti. Var það ekki einmitt æðsti presturinn, sem varð að „Kaífasi“? – Og voru það ekki virðingarmennirnir og „verðir siðgæðisins“, sem ákafast hrópuðu: „Krossfestu, krossfestu hann!“? – Og sagði umrædd vera ekki sjálf, að „hinir fyrstu mundu verða síðastir“? – Og varla er það sú aðstaða, sem þú óskar þér? – Vertu því á verði. Fyrr eða síðar munt þú standa frammi fyrir sama vandamáli, hversu öruggur, frjáls eða sæll sem þér finnst þú vera nú.
Þrenns konar afstaða til frásagnarinnar um upphaf köllunnar minnar
Ég hef verið svo margorður við þig sökum þess, að ef þú lest það sem á eftir fer, hlýtur kærleikshæfileiki þinn reynslupróf. Hér er um tvær leiðir að ræða. Það fer eftir afstöðu þinni til þessarar frásagnar, hvora leiðina þú ferð, nema þú teljir sjálfan þig ekki hafa hæfni til að fella dóm yfir mér, og haldir þér því hlutlausum. Ef svo er ekki, munt þú annað hvort skilja mig og frásögn mína verða þér til gleði, og þú munt þá velja þá leiðina, sem örvar allt og alla fram til ljóssins, til heimslausnarinnar, til hins langþráða varanlega friðar á jörðu, - eða þú verður gramur, umburðarlaus, telur mig starfa í þjónustu myrkursins, vinnur gegn mér og spillir fyrir mér, og ferð þar með þann veginn, sem leiðir til stríðs, til sorgar, til limlestinga og þjáninga, og skiptir alls engu máli hversu föstum fótum þú telur þig standa trúarlega séð. Þú tilheyrir þá þeim, sem réttast mun að segja um: „Faðir, fyrirgef þeim því að þeir vita ekki hvað þeir gjöra.“
Með því sem hér er sagt hef ég viljað reyna að leiðbeina þér og hjálpa til dýpri íhugunar, þannig að þú dæmir ekki óhugsað og fyrirfram það sem þú nú munt kynnast, gagnrýnir það og vinnir á móti því, án nokkurra raka eða umhugsunar.
Og leyfðu mér ennþá einu sinni að minna þig á hin miklu boðorð þinna eigin trúarbragða: „Vakið og biðjið, að þér fallið ekki í freistni, andinn er að sönnu reiðubúinn, en holdið er veikt.“ – „Hver sem þykist standa, gæti sín, að hann ekki falli.“ –
Ósk mín með tilliti til lesendanna
Ósk mín með tilliti til lesendanna.
Nú vaknar máske eftirfarandi spurning í huga þínum viðvíkjandi mér persónulega: „Eigi þessi aðvörunarorð, sem þú beinir þannig beint til mín, að merkja það, að þú sér „yfirskyggður heilögum anda“, sért „vígður“, á ég ef til vill að trúa því, að þú sért „heimslausnari“?“ – Mig langar með tilliti til þessa að gera þér það skiljanlegt þegar í stað, að ég óska þess alls ekki eða sækist eftir því, að neinn „trúi“ nokkru sérstöku um mig persónulega. Ég óska þess einungis, að fá alla til að rannsaka fyrirliggjandi staðreyndir um birtingu Guðs anda í sýnilegu líkamlegu fyrirbæri, hvar og í hverjum sem hann kann að birtast, og breyta þar með trú í vissu, vanþekkingu í þekkingu, trúarbrögðum í vísindi. Ég óska að berjast gegn hvers konar dýrkun á mér persónulega því til framdráttar, að skapast megi þekking á raunverulegri tilvist heilags anda.
Það er einmitt til þess að vekja ekki eftirtekt á mér sjálfum persónulega, mínu einkalífi, að ég hef verið svo margorður hér að framan. Ég er ekki svo einfaldur að halda, að raunverulegt bjargfast álit eða traust staða verði sköpuð einungis með því að tala um sjálfan sig. Mér er það einmitt fyllilega ljóst, að einungis tilvísun til raunverulegra staðreynda getur verið trúrænn efniviður handa hinum vísindalega hugsandi mönnum tuttugustu aldar, og að „fögur orð“ ein saman geta aðeins geðjast „einföldum sálum“. Þeir sem hylla slíkt hugarfar og sækjast eftir því, eru í rauninni „einfeldningar“ sjálfir, haldnir óseðjandi metorðagirnd, þyrstir að verða í hávegum hafðir, fá að njóta aðdáunar, vera tignaðir og tilbeðnir. Þeim er það lífsskilyrði, það er þeirra hjáguð, og allt annað í tilverunni verður þýðingarminna, eða aukaatriði.
En hvernig ætti slíkur maður að geta verið raunsær, óháður og skýr farvegur fyrir birtingu raunverulegra sanninda? Í þeim manni þar sem afhjúpun sannleikans er minna virði eða þýðingarminni en aðdáun og tilbeiðsla annarra á eigin persónu, verður sannleikurinn litaður eða mótaður þannig, að maðurinn fái notið þessarar aðdáunar eða tilbeiðslu. Og hið rétta eða eðlilega ástand, að sannleikurinn ætti að móta manninn, truflast þá í samsvarandi mæli í birtingu sinni. Það verður þá þvert á móti maðurinn, sem mótar sannleikann. Og hjá slíkum mönnum verður þá opinberun sannleikans einungis dauft ljós, litað eigingirni.
Það sem máli skiptir í frásögninni um upphaf köllunar minnar. Undirstaða framkomu minnar
Hér vil ég gjarnan taka það fram, að það er ekki aðalatriðið hvort ég er þessi eða hinn, hvort ég get þetta eða hitt. Það, sem aftur á móti vakir fyrst og fremst fyrir mér, er að sýna fram á, að birting heilags anda, það er aðsegja atburður sem í biblíunni kallast „opinberun“, hefur átt sér stað hjá mér í fullri dagvitund innan viðfemis upplifunarhæfileikans. Það skiptir mig ekki mestu máli að fá menn til að „trúa“ á þessa opinberun. Aftur á móti hefur það eingöngu orðið hlutverk mitt að sýna fram á, að nefnd opinberun eða birting „heilags anda“ er ekki neitt kraftaverk, þarf ekki að vera neinn leyndardómum, heldur er fullkomlega raunsæ, skynjanleg staðreynd, sem á sinn hátt er unnt að greina, gera skynseminni skiljanlega, eins og hvert annað raunhæft fyrirbæri, sem við þekkjum úr daglegu lífi. Ég stefni þess vegna eingöngu að því, að skapa meðbræðrum mínum grundvöll þekkingar á þeim sviðum, þar sem þeir urðu áður að láta sér nægja að trúa og urðu því að byggja lífsgrundvöll sinn á sögusögnum annarra.
Að veita upplýsingar um og skapa skilning á hinum kosmísku svæðum, að efla virðingu og lotningu fyrir hinum stjórnandi öflum og æðstu kosmísku máttarvöldum tilverunnar, að sýna fram á að kærleikslögmálið – þ.e. að mönnum ber að elska hver annan – er vísindi, veruleiki og sæla, það er þetta, sem hefur orðið mér heilagt, orðið hinn eini grundvöllur tilveru minnar. Hvert smárjóður í frumskógum dulspekinnar, sem mér tekst að rækta til raunhæfra vísindalegrar siðmenningar, þannig að Guð verði staðreynd í huga eins af meðbræðrum mínum, er mér þúsund sinnum meira virði en milljón lofgerðir fluttar í blindni af „einföldum sálum“.
Og í trausti þess, að þér megi skiljast þetta, og að það megi hjálpa þér til að öðlast hina réttu sannleikselskandi afstöðu, ef þú heldur nú áfram að lesa frásögn mína, vildi ég aðeins mega minna þig á orð þíns eigin heimslausnara: „Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá“. –
Að gera hin eilífu sannindi, hinar eilífu niðurstöður, hið mesta af öllu sem hinir vitru hafa tjáð, að vísindum og þar með að kærleika það eru mínir „ávextir“."
© 1981 Martinus Institut